Heim

Baldur

21. desember 2017

Stafræn framtíð Arion banka

Fyrir tæplega tveimur árum síðan ákvað Arion banki að setja á stofn mjög metnaðarfulla stefnu á vöruþróunarsviði bankans sem myndi stuðla að því að gera bankann að fremsta stafræna bankann á Íslandi. Í ljósi þessarar nýju stefnu var sett á stofn ný deild innan fyrirtækisins og hún nefnd Stafræn framtíð. Mig langar aðeins að segja frá stafrænni framtíð Arion banka frá hlið hönnuðar.

Í Stafrænni framtíð Arion banka eru valin afmörkuð verkefni og þau hugsuð í raun sem startup fyrirtæki þar sem hvert verkefni stendur í 16 vikur og samanstendur af þverfaglegu teymi sem er sjálfbært um að þróa stafræna vöru innan bankans frá hugmynd til raunveruleika. Teymin eru skipt í viðskipta- og þróunareiningu og hefur hver eining sinn teymisþjálfa (e. change agent). Einn verkefnastjóri er yfir báðum teymum sem ber ábyrgð á viðkomandi verkefni. Hönnuðir Kosmos & Kaos voru fengin inn í stafræna framtíð frá byrjun til þess að leiða notendaupplifunar- og viðmótshönnun á verkefnunum. Einn hönnuður sér um hvert verkefni og er partur af viðskiptaeiningu verkefnisins.

Verkefnin hafa verið mjög fjölbreytt, t.d. skráning einstaklinga og fyrirtækja í viðskipti við bankann, skipta kreditkortareikningi í Arion appinu, sjálfvirkt greiðslumat fyrir íbúðarlán og margt fleira.

Stafræn framtíð Arion - Arion appið var hannað af Kosmos & Kaos

Það skiptir máli að byrja vel

Að búa til stafræna vöru innan bankans á sextán vikum er alls ekkert gefið. Fólk þarf að vera gríðarlega vel samstillt og það skiptir miklu máli að allir séu með sameiginlega sýn (e. vision), viti hvert skal stefna og hvers vegna. Til þess að þjappa hópnum saman og stilla saman strengi eru haldnar tveggja daga workshop.

Fyrri daginn er farið í saumana á núverandi stöðu á því verkefni sem ráðast á í (t.d. hvernig greiðslumat fer fram). Allir meðlimir verkefnisins sem og aðrir hagsmunaaðilar innan bankans kryfja núverandi stöðu, kryfja alla anga til mergjar þannig að allir verða meðvitaðir um hvernig hlutirnir virka og virka ekki. Þetta er sérstaklega gott fyrir þá sem lifa ekki og hrærast  í bankanum allan daginn. Við fáum pláss til að kynna okkar núverandi stöðu á vörunni, verklagið og kynnast fólkinu sem maður mun vinna þétt með næstu mánuði.

Seinni daginn er byrjað með hreint blað. Ekkert er ómögulegt og hópurinn hvattur til þess að hugsa út fyrir kassann. Markmiðið með þessum degi er að fá upp hugmyndir sem geta gjörbreytt og bætt landslagið á því viðfangsefni sem verkefnið tengist.

Það sem gerist á þessum degi verður síðan rauði þráðurinn gegnum allt verkefnið. Auðvitað breytist ansi margt, hugmyndir þróaðar og bættar en í grunninn er unnið með þá lausn sem teymið kemur sér saman um á þessum degi. Allir eru með, allir vita hvert skal stefna og það er mikill hugur í fólki að byrja á þessum sextán vikum.

Stafræn framtíð Arion banka - einstaklingar geta skráð sig í viðskipti á nokkrum mínútum

Vika hönnuðar í stafrænni framtíð

Hlutverk hönnuðar í stafrænni framtíð er gríðarlega skemmtilegt og krefjandi. Vikurnar er mjög mismunandi eftir því sem líður á og verkefnin breytast en það er samt sem áður ákveðinn strúktúr fyrir hverja viku.

Í byrjun hverrar viku, strax um morguninn hittast teymin í sitthvoru lagi og fara yfir vikuna. Listað er upp metnaðarfullri dagskrá fyrir vikuna og verkefni úthlutuð á teymismeðlimi sem hentar þeirra sérþekkingu best. Á þessum morgunfundum er líka farið yfir fyrri viku og rætt um hvað gekk upp og hvað hefði mátt fara betur. Þessi fundur stillir okkur saman og maður veit betur til hvers er ætlast af manni þá vikuna. Þetta hjálpar mikið við að skipuleggja sig rétt og vel.

Það eru gríðarlega margar og hraðar viðskiptaákvarðanir sem teknar eru af teyminu. Þetta gerir það að verkum að hönnuður og teymisþjálfi ( og í raun allt teymið) vinna gríðarlega þétt saman svo að allar ákvarðanir sem teknar eru komi fram í flæðiritum, textum og mock-upi sem teymið síðan rýnir saman. Það er í mikið í höndum hönnuðar að fá reglulega endurgjöf frá meðlimum hópsins til þess að fá ferskar hugmyndir og ítra hlutinn sem unnið er að hverju sinni. Í ljósi þess að hópurinn er þverfaglegur þá fær hönnuðurinn mjög fjölbreytilegar athugasemdir frá honum, t.d. þá hefur lögfræðingurinn í teyminu allt öðruvísi nálgun á efnið heldur en markaðsráðgjafinn. Þetta gerir samvinnuna mjög dýnamíska og skemmtilega.

Notendaprófanir eru gerðar mjög reglulega – helst í hverri viku og á öllum stigum verkefnisins. Að fá endurgjöf frá notendum er kjarninn í því að búa til vöru sem er fyrir neytendur vörunnar, vöru sem þeim finnst ánægjulegt að nota. Það væri hræðilegt (og dýrt!) að vera búin að smíða vöru sem allir innan teymisins eru gríðarlega ánægðir og stoltir með en komast seinna að því að þeir sem virkilega nota vöruna myndu finnast hún óskýr, óaðgengileg og leiðinleg að nota. Það þurfa ekki að vera geimvísindi að búa til notendaprófanir og í stafrænni framtíð eru þær gerðar mjög hratt og ódýrt.

Í Kosmos og Kaos eru tveir til þrír hönnuðir í verkefnum í stafrænni framtíð. Það er mjög dýrmætt að fá athugasemdir frá samþenkjandi fólki sem hefur jafn mikla ástríðu fyrir hönnun og þú sjálfur. Á miðvikudögum hittumst við ásamt yfirhönnuði og förum yfir afrakstur vikunnar, rýnum verk hvors annars, finnum út lausnir og hlæjum. Undanfarið höfum við verið að samræma útlit allra verkefna innan stafrænnar framtíðar og ytri vef Arion banka og þessi tími er einnig nýttur til að fara yfir það hvort við séum ekki á sömu bylgjulengd varðandi útlit og ef ekki finna út hvaða lausn skal nota. Maður kemur endurnærður og fullur af hugmyndum út úr þessum miðvikudagsfundum og er góður byr fyrir restina af vikunni.

Í lok vikunnar er rýni fyrir alla hagsmunaaðila verkefnisins. Hagsmunaaðilar geta verið t.d. starfsfólk í útibúi, yfirmenn ákveðinna deilda eða jafnvel sjálfur bankastjórinn. Á þessum rýnisfundum er oft farið í gegnum ákveðin flæði innan verkefnisins sem hópurinn vill koma á framfæri og fá rýni á. Þetta er gríðarlega mikilvægt þar sem það setur ákveðna pressu á teymið þar sem það verður að geta sýnt eitthvað nýtt í hverri viku. Einnig er mikilvægt fyrir starfsfólk bankans að geta fylgst með hvernig verkefnin ganga og haft áhrif á þau í hönnunarferlinu. Fyrir hönnuðinn er undirbúningur á þessum fundum pressa, þar sem það er í hanns höndum að allt sé rétt sett upp og flæðið nógu skýrt fyrir utanaðkomandi aðila.

Að lokum

Stafræn framtíð er gríðarlega metnaðarfullt verkefni hjá Arion banka og er virkilega lærdómsríkt og spennandi fyrir hönnuði Kosmos að vera partur af þessu verkefni.

Það er hressandi og jákvætt að sjá fyrirtæki eins og Arion banka hafa jafn skýra sýn á því sem það er að gera og hætta aldrei að læra af hverju einasta verkefni. Tölurnar sýna líka að verkefnin eru að falla gríðarlega vel í kramið hjá viðskiptavinum Arion banka, sem er bara rétt að hefja sína stafrænu vegferð.