Heim

Jóna Dögg

3. nóvember 2017

Ný vinna og nýtt tól

Hæ! Ég heiti Jóna Dögg og er hönnuður hjá Kosmos og kaos.

Ég er frekar ný í Kosmosinu en samt sem áður hokin af reynslu eins og @Gummisig lýsir mér. En ég hef unnið í vefbransanum í um tólf ár og þar af var ég níu ár hjá Hugsmiðjunni.

Ætli mætti ekki segja að ég sé nokkuð heimakær, en eins og svo marga aðra, þyrstir mig líka í breytingar. Nýjar áskoranir. Stundum er það bara þannig að maður verður að gera eitthvað róttækt, eins og að skipta um vinnu. Það er víst bara hollt fyrir mann. Þannig getur maður haldið áfram að þróast sem hönnuður eða hvað það nú er sem maður gerir.

Ég var auðvitað löngu búin að gleyma hvernig það er að breyta svona um starfsumhverfi og hvað fyrstu vikurnar geta verið strembnar. Það er að segja að aðlagast nýju umhverfi og kynnast nýju fólki og auðvitað nýjum aðferðum við að gera hlutina. Sem betur fer valdi ég allavega frábæran vinnustað sem tók opnum örmum á móti mér.

 

Þetta var samt smá stökk fyrir mig því ég varð líka að skipta yfir í Mac og læra á nýtt hönnunartól, það er að segja Sketch. Ég hef alla tíð verið á PC og eingöngu notað Photoshop til að hanna í og Illustraitor til að teikna upp íkon. En þetta reyndist þó töluvert auðveldara en ég var búin að gera ráð fyrir.

Það tók mig örugglega sirka tvær til þrjár vikur að verða nokkuð sleip í Sketch en fyrstu tvær vikurnar voru verstar því ég var endalaust á ýta á vitlausa takka. En svo loksins komust helstu flýtileiðirnar í vana og nú er ég loksins hætt að horfa á lyklaborðið til að tékka hvort ég sé að ýta á réttu takkana. Þetta er svona svipað ferli eins og þegar maður er að lyfta, en líkaminn er tvær vikur að venjast nýjum hreyfingum. Maður er sem sagt með harðsperrur nánast daglega fyrstu tvær vikurnar í nýju lyftingarprógrammi.

Áður en ég byrjaði að gera eitthvað í Sketch þá horfði ég á nokkur kennslumyndbönd á Youtube fyrir byrjendur og náði þar að læra allskonar sniðugt sem hefur nýst mjög vel. Það er til dæmis snilld að geta sett mínus eða plús tölu inn í ‘size’ og ‘position’ gluggana til að færa til eða stækka og minnka hluti.

En hvort er nú betra, Sketch eða Photoshop?

Þessa spurningu er ég búin að fá alveg nokkru sinnum síðan ég færði mig yfir. Ég get ekki enn alveg svarað henni því mér finnst ýmistlegt í Photoshop mun betra en í Sketch en síðan er ýmislegt líka í Sketch sem er mun betra en Photoshop. Það að setja t.d. transparent gradient á hluti í Sketch er í mun einfaldara en í Photoshop – maður þarf ekki að vera að vesenast með maska eins og gert er í Photoshop heldur skellir því bara beint á element-ið. Það tók mig alveg dágóðan tíma að finna út úr því! ?
Hér er líka skemmtilegt infograph sem var sett upp fyrir Sketch vs. Photoshop.

En Mac eða PC?

Ég myndi segja PC. En ég er líka með 20 ára reynslu á PC en einungis 6 mánaða reynslu á Mac. En ég er samt alveg farin að reka mig á að ég er ekki lengur með shortcutin á hreinu þegar ég fer aftur í PC. Horfi vitlausu megin um leið og ég ætla að loka einhverjum glugga og slíkt.

Kannski þarf maður bara aðeins lengri tíma til að byrja að elska Mac?