Heim

Jóna Dögg

9. júlí 2018

Berlín og hönn­un­ar­sprettur

Hvað er betra en bjór og bratwurst? Nú að hangsa á undarlegum börum með bjór í hendi í miðborg Berlínar!
En það er nú ekki allt sem hægt er að gera í Berlín…

Tveir hönnuðir frá Kosmos og kaos lögðu af stað í leiðangur upp úr miðjum febrúar fyrr á árinu og var för þeirra heitið til höfuðborgar bratwurstsins, Berlínar. Ástæða ferðarinnar var til að kanna nánar hvernig AJ&Smart haga hönnunarsprettinum sínum þessa dagana, þótt nokkrir bjórar voru að sjálfsögðu kannaðir í leiðinni.

Dee hjá AJ&Smart
Dee hjá AJ&Smart tók vel á móti okkur í höfuðstöðvum AJ&Smart

Fyrir þá sem ekki vita er einn af eigndum AJ&Smart, Jake Kapp, höfundur bókarinnar “How to solve big problems and test new ideas in just five days”. Eins og titilinn gefur til kynna er þetta aðferðarfræði til leysa hvers kyns vandamál og prófa lausnina á einungis fimm dögum. Þetta er kallað “Design Sprint” eða hönnunarsprettur á góðri íslensku.

Mörg fyrirtæki á heimsvísu eru farin að tileinka sér þessa aðferðafræði og er viðskiptavinalistinn hjá AJ&Smart ansi vígalegur með kúnna eins og Google, Bose, Airbnb, Netflix, Lego, Slack og fleiri.

Nema hvað, búið er að stytta sprettinn niður á 4 daga!

Undirrituð (Jóna Dögg) og Örvar, bæði hönnuðir í Kosmosinu voru svo lukkuleg að fá einna fyrst að kynnast fjögurra daga sprettinum á námskeiði hjá AJ&Smart.

Jóna og Örvar á námskeiðinu

Þetta þýðir að við náum að spara fyrirtækjum hellings pening til viðbótar! Ég meina hver kannast ekki við að vera búinn að ráðast af stað í eitthvað verkefni sem virkar ekki svo stórt þegar byrjað er. En eftir að það byrjar er hannað og hannað, forritað og forritað, og svo forritað enn meira því sýnin er búin að breytast og það er bara haldið áfram og verkefnið virðist aldrei ætla að taka enda. Þetta kostar heilan helling, svo ég tala nú ekki um allan tímann sem fer í verkefnið og mögulega er endaniðurstaðan ekki eins góð og haldið var fram í byrjun verkefnisins.

En hvað gerir hönnunarsprettur raunverulega?
  • Hönnunarsprettur hjálpar til við að setja skýra sýn á lausn vandans.
  • Hönnunarsprettur sparar margra mánaða, jafnvel ára vinnu til að kanna hvort hugmyndin sé góð lausn og hvort hún virkar.
  • Hönnunarsprettur fær teymið til að vera á sama bandi og hugsa lausnamiðað saman í 4 daga og þar með leysa vandann sem er fyrir hendi.
Unnið saman að „storybord“ til að setja saman lausn

Anyhow… Við Örvar mættum galvösk til Berlínar á þriðjudegi og þræddum alla skrítnu barina sem urðu á vegi á okkar þann daginn en svo var bara haldið snemma til hvílu til að mæta hress og hitta liðið hjá AJ&Smart morguninn eftir.

Vaknað var snemma á miðvikudeginum en undirrituð fór og kannaði ræktaraðstöðu hótelsins og náði að svitna þar aðeins áður en haldið var í svakalegan buffet morgunmat á hótelinu. Þvílíkur lúxus og æðislegheit!

Umræður í lok námskeiðisins

Námskeiðið hjá AJ&Smart stóð síðan í 2 heila daga þar sem farið var í öll smáatriði á hvernig eigi að haga fjögurra daga spretti. Í lok námskeiðisins fengum við síðan viðurkenningu fyrir að hafa setið námskeiðið.

Jóna Dögg og Örvar með viðurkenninguna

Þetta var ótrúlega frábær og gefandi reynsla og var ég svo ótrúlega heppin að fá að nýta kunnáttuna strax eftir að ég kom heim með stórum viðskiptavin Kosmos og kaos. Ég held ég geti ekki sagt annað en sá sprettur hati tekist ótrúlega vel.

Kosmos og kaos hefur einnig verið nokkuð í því að sérsmíða vinnustofur fyrir viðskiptavini ef þessi fjögurra (áður fimm) daga sprettur passar ekki alveg í kringum það “vandamál” sem er fyrir hendi. En þessi aðferðarfræði með hönnunarsprettinn ætti þó að ganga upp í 95% tilfella.

Ef þig langar til að vita meira eða bóka með okkur sprett, hafðu endilega samband við okkur!